Innlent

Tólf tilnefndir til Blaðamannaverðlaunanna

Verðlaunahafarnir 2004. Þá hlutu Agnes Bragadóttir, Brynhildur Ólafsdóttir og Reynir Traustason verðlaunin.
Verðlaunahafarnir 2004. Þá hlutu Agnes Bragadóttir, Brynhildur Ólafsdóttir og Reynir Traustason verðlaunin.

Dómnefnd Blaðamannaverðlaunanna hefur komið sér saman um þrjár tilnefningar í hverjum af hinum þremur flokkum verðlaunanna. Tólf eru tilnefndir til verðlaunanna í ár. Meðal þeirra eru Sigrún Davíðsdóttir, Erla Hlynsdóttir og Sigurjón M. Egilsson.

Kristján Már hlaut verðlaunin í fyrra

Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2, fékk blaðamannaverðlaunin í fyrra. Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson í Kompás fengu verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins. Ritstjórn DV, Þóra Tómasdóttir og Sigmar Guðmundsson í Kastljósi deildu svo verðlaunum fyrir bestu rannsóknarblaðamennskuna.

Verðlaunin verða veitt eftir viku

Á laugardaginn eftir viku verður tilkynnt um hverjir verðlaunahafarnir eru í hinum einstöku flokkum, en einn hinna tilnefndu í hverjum flokki fær verðlaunin.

Tilnefningar dómnefndar eru þessar:

Blaðamannaverðlaun ársins 2008

- Jóhann Hauksson, DV, fyrir fréttaskrif og umfjöllun um mikilvæg þjóðfélagsmál sem báru vitni um mikil tengsl, reynslu og skilning, og voru iðulega fyrstu fréttum af málum. Dæmi um slíkt voru skrif Jóhanns um samkomulag íslenskra stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

- Sigrún Davíðsdóttir, RÚV -Spegillinn, fyrir pistla þar sem nýjum hliðum á fjölmörgum málum - m.a. í tengslum við bankahrunið og áhrif þess erlendis - var velt upp og þau sett í nýtt og upplýsandi samhengi.

- Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, mbl.is, fyrir vandaðar fréttir á mbl.is þar sem hún nálgaðist frumlega málefni líðandi stundar og netmiðillinn var nýttur með nýjum hætti í íslenskri fjölmiðlun.

Rannsóknarblaðamennska ársins 2008

- Atli Már Gylfason og Trausti Hafsteinsson, DV, fyrir ítarlega og afhjúpandi umfjöllun um kynþáttafordóma meðal ungs fólks á Suðurnesjum og margvísleg áhrif þeirra.

- Brynjólfur Þór Guðmundsson og Erla Hlynsdóttir, DV, fyrir ítarleg og samfelld skrif og greiningu á eftirlaunum ráðamanna og áhrifum eftirlaunafrumvarpsins.

- Sigurjón M. Egilsson, Mannlíf og Bylgjan, fyrir vandaðar og ítarlegar greinar um íslenskt efnahagsástand í Mannlífi, þar sem mál voru krufin með ítarlegri hætti en títt er í íslenskum fjölmiðlum. Samhliða stýrði Sigurjón útvarsþætti á Bylgjunni, þar sem íslensk þjóðmál voru í brennidepli.

Besta umfjöllun ársins 2008

- Baldur Arnarson, Morgunblaðið, fyrir greinaflokkinn Ný staða í norðri, þar sem farið var yfir þær náttúrufarslegu, efnahagslegu, félagslegu og pólitísku breytingar, sem hlýnun andrúmslofts og breytt staða á norðurslóðum hefur í för með sér.

- Brjánn Jónasson, Fréttablaðið, fyrir upplýsandi og vel fram sett skrif um framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem fjallað var um málið og aðdraganda þess.

- Ragnar Axelsson og Önundur Páll Ragnarsson, Morgunblaðið, fyrir umfjöllun um virkjunarkosti á Íslandi. Þar voru dregnir fram með öflugri samvinnu texta og mynda kostir og gallar hvers virkjunarkosts um sig og málið sett í skipulagt samhengi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×