Innlent

Telja banka beita sjónhverfingum

Hagsmunasamtök heimilanna minna á orð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að svigrúm sé til leiðréttingar skulda. Fréttablaðið/vilhelm
Hagsmunasamtök heimilanna minna á orð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að svigrúm sé til leiðréttingar skulda. Fréttablaðið/vilhelm
Allar leiðir fjármálastofnana til greiðslujöfnunar húsnæðislána og skuldaaðlögunar eru því marki brenndar að þær auka heildargreiðslubyrði heimilanna, fyrir utan leið Arion banka. Þetta er furðulegt í ljósi þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur upplýst að töluvert svigrúm sé fyrir verulega lækkun á greiðslu- og skuldabyrði heimilanna.

Svo segja Hagsmunasamtök heimilanna í nýrri samantekt. Greiðslujöfnun húsnæðislána geti hækkað heildarkostnað lántaka um allt að 180 prósent á lánstíma.

Í greinargerð samtakanna er fullyrt að Mark Flanagan, sendifulltrúi AGS, hafi sagt á fundi með félögum úr samtökunum að sjóðurinn vilji sjá allt svigrúm stóru bankanna til leiðréttingar nýtt. Svigrúmið nemi um 44 prósentum af verðmæti lánasafnanna.

Hagsmunasamtökin telja bankana beita blekkingum. Lausnir fjármálastofnana bjóði upp á að mánaðarlegar greiðslur lækki mikið með því að greitt sé minna af höfuðstóli, en meira í vexti. Lækkunin vari í ákveðinn tíma en svo byrji bankarnir að „vinna upp hvern þann afslátt sem lántakar fá fyrstu árin“.

Ef bankarnir skiluðu þeim afslætti sem þeir fengu frá gömlu bönkunum gætu þeir veitt fimmtíu prósenta afslátt af gengistryggðum lánum, og tuttugu prósenta afslátt af höfuðstóli verðtryggðra lána, segja samtökin. Bankarnir eigi að ganga mun lengra en þeir hafa gert.

Þessar fjármálastofnanir hafi valdið hruni bankakerfisins og ætlist nú til þess að almenningur borgi brúsann. Samtökin krefjast þess að fyrirtækin axli sína ábyrgð og stuðli að sátt í samfélaginu.

klemens@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×