Innlent

Áttu að fylgjast með skipum

Hitler og félagar, Tveir Íslendingar og einn Þjóðverji voru sendir til Íslands til að njósna um yfirvofandi árás, sem nasistar töldu að yrði skipulögð frá Íslandi.
nordicphotos/AFP
Hitler og félagar, Tveir Íslendingar og einn Þjóðverji voru sendir til Íslands til að njósna um yfirvofandi árás, sem nasistar töldu að yrði skipulögð frá Íslandi. nordicphotos/AFP

Bretland Vorið 1944 töldu Þjóðverjar miklar líkur á því að Bandamenn myndu ráðast inn í Frakkland frá Íslandi, í því skyni að frelsa Frakkland undan hernámi nasista. Þetta kemur fram í skjölum, sem þjóðskjalasafnið í Bretlandi birti í gær. Í skjölunum segir frá ferð þriggja manna, Þjóðverjans Ernsts Fresenius og Íslendinganna Hjalta Björnssonar og Sigurðar Júlíussonar, sem nasistar sendu til Íslands til að kanna skipaferðir og herflutninga.

Í frétt breska dagblaðsins The Tele­graph, sem byggð er á skjölunum, segir að selveiðimaður nokkur hafi séð til ferða þremenninganna skammt frá Borgarfirði eystri og þótt þeir grunsamlegir.

Þrír njósnarar Bandamanna, sem hétu Miller, Hoan og Frick, fréttu af þessu þar sem þeir sátu að snæðingi á hóteli á Seyðisfirði 5. maí 1944. Þeir héldu af stað og handtóku mennina, sem síðan voru sendir til Bretlands og voru þar í haldi til stríðsloka. Í yfirheyrslum þar gáfu Íslendingarnir fúslega upplýsingar um ferðir sínar, en Fresenius vildi sem minnst segja. Mennirnir þrír eru sagðir hafa gengið í njósnaskóla í Noregi, þar sem þeir lærðu leyniskrift, dulmál og skemmdarverkastarfsemi.

Fresenius hafði áður búið hér á landi í nokkur ár. Hann var frumkvöðull í ylrækt á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, en hélt aftur til Þýskalands nokkru eftir valdatöku Hitlers. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×