Enski boltinn

Ástralir vilja halda HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmaður ástralska landsliðsins.
Stuðningsmaður ástralska landsliðsins. Nordic Photos / AFP
Knattspyrnusamband Ástralíu hefur staðfest að það muni sækja um að fá að halda heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem fer fram árið 2018.

Umsóknarfresturinn rennur út á morgun fyrir bæði keppnina árið 2018 sem og árið 2022. Þær þjóðir sem ekki verða valdar til að halda HM 2018 geta þá strax boðið í að halda keppnina 2022 en kosið verður um gestgjafa beggja keppna á sama degi.

Átta þjóðir hafa nú staðfest að þær muni leggja inn umsókn um að halda keppnina. Þær eru England, Indónesía, Japan, Katar, Rússland, Bandaríkin, Mexíkó og Ástralía.

Alþjóða knattspyrnusambandið ákvað árið 2007 að taka upp þá stefnu að skipta keppnunum á milli heimsálfa. Þar sem keppnin fer fram í Suður-Afríku árið 2010 mega afrískar þjóðir ekki sækja um að halda mótið fyrr en árið 2022 en litlar líkur eru á að það gerist.

HM 2014 verður haldið í Suður-Ameríku og mega þjóðir þaðan því ekki senda inn umsóknir á nýjan leik fyrr en fyrir keppnina 2026.

Kanada og Kína hafa bæði verið sögð líkleg til þess að senda inn umsókn. Þá hafa bæði Belgía og Holland annars vegar og Portúgal og Spánn hins vegar þótt líkleg til að senda inn sameiginlega umsókn. Hins vegar lét Sepp Blatter, forseti FIFA, hafa eftir sér á dögunum að HM yrði aðeins haldið í einu landi - þó svo að keppnin hafi verið haldin í Japan og Suður-Afríku árið 2002.

Blatter hefur einnig sagt að hann væri hrifinn af þeirri hugmynd að halda mótið í Eyjaálfu í fyrsta sinn og því ekki ólíklegt að hann muni styðja tilboð Ástrala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×