Enski boltinn

Jafnt í grannaslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shola Ameobi skorar úr vítaspyrnunni.
Shola Ameobi skorar úr vítaspyrnunni. Nordic Photos / Getty Images
Newcastle og Sunderland skildu í dag jöfn, 1-1, í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.

Djibril Cisse kom Sunderland yfir í fyrri hálfleik en Shola Ameobi jafnaði metin fyrir heimamenn í síðari hálfleik. Leikurinn var nokkuð fjörugur og var mikið um færi en bæði lið þurftu á endanum að sætta sig á skiptan hlut.

Joe Kinnear gerði fjórar breytingar á sínu liði en það er mikið um meiðsli í herbúðum Newcastle. Nicky Butt, Shola Ameobi og Jonas Gutierrez voru allir í byrjunarliðinu á nýjan leik og þá fór Kevin Nolan beint í byrjunarliðið en hann kom fra´Bolton í vikunni.

Tvær breytingar voru gerðar á liði Sunderland frá síðasta leik. Carlos Edwards og Kieran Richardson komu inn fyrir Teemu Tainio og Andy Reid.

Sunderland fékk fyrsta almennilega færið í leiknum er Richardson á skot í slá beint úr aukaspyrnu. Hann ætlaði hins vegar vafalaust að koma með fyrirgjöf en boltinn fór fram hjá öllum í teignum og hafnaði í stönginni. Kenwyne Jones náði frákastinu og skaut að marki en Nolan bjargaði á línu.

Stuttu síðar átti Newcastle skot í rammann. Fyrirgjöfin kom frá Jose Enrique og sóknarmaðurinn Andy Carroll átti skalla í slá.

Steven Taylor átti svo sendingu á Ameobi eftir góðan sprett en sá síðarnefndi fór illa með gott færi er hann þrumaði knettinum yfir markið.

Steve Harper stóð í marki Sunderland í fjarveru Shay Given sem er væntanlega á leið til Newcastle. Hann var vel á verði er Djibril Cisse átti skot að marki en hann kom engum vörnum við nokkrum mínútum síðar. Varnarmaðurinn Fabricio Coloccini gerði sig sekan um að spila Cisse réttstæðan er sendingin kom frá Dean Whitehead. Cisse brást ekki bogalistin og skoraði einn gegn Harper.

Heimamenn vildu fá vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks en ekkert var dæmt. Þeir vildu meina að Anton Ferdinand hefði brotið á Damien Duff.

En stundarfjórðungi síðar féll annar leikmaður Newcastle í teignum hjá Sunderland og í þetta sinn dæmdi Howard Webb dómari vítaspyrnu. Steed Malbranque var dæmdur brotlegur eftir viðskipti sín við Steven Taylor en það var Ameobi sem skoraði úr spyrnunni og jafnaði metin fyrir Newcastle.

Ameobi fékk svo gott tækifæri að skora öðru sinni eftir fyrirgjöf Damien Duff en skaut beint á Marton Fulop í marki Sunderland.

Varamaðurinn Michael Chopra, fyrrum leikmaður Newcastle, komst svo einn í gegnum vörn sinna gömlu félaga en í stað þess að reyna að skora sjálfur gaf hann boltann á Jones sem missti af honum. Illa farið með gott færi.

Bæði lið fengu svo sín færi á lokamínútunum en tókst ekki að skora. Niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Sunderland er í þrettánda sæti með 27 stig en Newcastle í því fimmtánda með 24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×