Íslenski boltinn

Bjarni: Tvö töpuð stig

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bjarni Guðjónsson.
Bjarni Guðjónsson. Mynd/E. Stefán

KR-ingar fóru illa að ráði sínu þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Þróttara á heimavelli í kvöld. Þeir voru mun sterkari aðilinn í leiknum en náðu ekki að koma boltanum í mark Þróttar.

Bjarni Guðjónsson, leikmaður KR, var vitaskuld mjög svekktur í leikslok. "Þetta er svekkjandi. Þeir líta sjálfsagt á þetta sem unnið stig en þetta eru tvö töpuð stig fyrir okkur. Við vissum að þeir myndu leggjast til baka eins og þeir gerðu en við náðum ekki að sækja nógu hratt á þá eða af nógu mikilli ákefð. Þá er ég ekki bara að tala um sóknarmennina því við erum allir sóknarmenn þegar við erum með boltann og allir varnarmenn þegar við verjumst," sagði Bjarni í samtali við Vísi í leikslok.

Þróttarar lögðu mikla áherslu á varnarleikinn og Bjarni sagði það ekki hafa komið KR liðinu á óvart. "Við undirbjuggum okkur undir það að þeir myndu verjast á mörgum mönnum og við lögðum leikinn öðruvísi upp en hann þróaðist en það gekk einfaldlega ekki eftir hjá okkur. Við vörðumst vel og þeir fá held ég ekkert færi og ógna okkur í sjálfu sér ekki neitt. Við náum hins vegar ekki að skapa okkur hættuleg færi og í þeim hálffærum sem við fáum vantar meiri kraft í okkur," bætti Bjarni við.

KR spilar við ÍBV í Eyjum í næsta leik, en Eyjamenn eru án stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar. "Það fer eftir aðstæðum hvernig það er að spila í Eyjum. Ef það eru svona aðstæður eins og voru í kvöld þá er það gaman, en ef við þurfum að berjast líka við vindinn verður það erfitt. Vonandi verða kjöraðstæður þar eins og hér og þá verður gaman að fara til Eyja," sagði Bjarni Guðjónsson leikmaður KR að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×