Erlent

Drykkja kínverskra skrifstofumanna aldrei meiri

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kínverji þenur raddböndin í karaoke sem er vinsælt tómstundagaman þegar menn fá sér neðan í því í austrinu.
Kínverji þenur raddböndin í karaoke sem er vinsælt tómstundagaman þegar menn fá sér neðan í því í austrinu.

Áfengisdrykkja telst hreinlega hluti af starfi margra skrifstofumanna í Alþýðulýðveldinu Kína með tilheyrandi kostnaði fyrir hið opinbera auk annarra vandræða.

Hjá mörgum embættismönnum þykja það sjálfsagðir mannasiðir að veita áfengi á hvers kyns fundum og samkomum þar sem hátt settir aðilar koma saman og er þá ekkert til sparað og veigarnar hafðar vel ríflegar. Li Chengyan, prófessor í félagsfræði við háskólann í Peking, segir það munu verða mjög erfitt að breyta þessum rótgróna sið og til þess muni hreinlega þurfa lagasetningu.

Kínverjar eru heldur engir aukvisar þegar kemur að skrifstofudrykkjum og láta ekki sitt eftir liggja. Stutt er síðan yfirmaður hjá hinu opinbera lést úr áfengiseitrun eftir stíf fundahöld á karaokebar nokkrum og var hans minnst með þeim orðum að hann hefði dáið með sæmd og það við skyldustörf. Kostnaðurinn við þessa lifnaðarhætti opinberra starfsmanna er talinn nema sem samsvarar um 9.300 milljörðum íslenskra króna og er engan bilbug að finna á mönnum.

Einn embættismaður lét kínverskt dagblað hafa það eftir sér að það væri hreinlega til skammar ef hann gæti ekki hellt gesti sína blindfulla. Hann sagði hvorki sjálfan sig né gestina vilja drekka í vinnunni en hefðin væri svo sterk að það væri engin leið fyrir þá að eiga viðskipti öðruvísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×