Íslenski boltinn

Dennis Siim missir líklega "bara" af sex leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Siim mun missa af fyrri leiknum á móti KR.
Dennis Siim mun missa af fyrri leiknum á móti KR. Mynd/Daníel

FH-ingar fengu góðar fréttir í dag af Dananum Dennis Siim sem meiddist á hné í undanúrslitum Lengjubikarsins á mánudagskvöldið.

Það var óttast í fyrstu að Siim væri með slitin krossbönd og yrði úr leik allt tímabilið en eftir nánari skoðun kom í ljós að meiðslin eru ekki eins alvarleg.

Dennis fór í myndatöku í gær og þar kom í ljós að krossböndin væru heil. Pétur Stephensen, framkvæmdastjóri FH, staðfesti þetta á heimasíðu félagsins og talaði um að Siim verði frá í fjórar til sex vikur.

Dennis Siim mun því væntanlega missa "bara" af fyrstu sex leikjum FH í Pepsi-deildinni sem eru á móti Keflavík (úti), Fram (heima), Breiðabliki (úti), Stjörnunni (heima), KR (úti) og Fjölni (heima).

FH-ingar vonast til að Dennis Siim verði orðinn klár að nýju eftir landsleikjahléið í byrjun júní en fyrsti leikur liðsins eftir það verður á móti Grindavík á útivelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×