Innlent

Sakar ekki að sjá hvað er í boði

Atli Gíslason
Atli Gíslason

„Þingflokkurinn samþykkti einróma að mynda félagshyggju- og velferðarstjórn með Samfylkingu og það eru viðræður í gangi milli flokkanna um lausn í þessu ESB-máli og ég bíð hennar," segir Atli Gíslason, þingmaður VG. Hann var spurður hvort rétt væri að hann styddi ekki ríkisstjórn sem hafi ESB-aðildarviðræður að markmiði, en Atli hefur sagt að réttast væri fyrir Samfylkingu að leita samstarfs við aðra flokka um slíkar viðræður.

Atli neitar því að hann sé ósammála ályktun landsfundar VG um að ESB-aðild skuli leidd til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hafi ávallt talað fyrir því að fram fari lýðræðisleg og upplýst umræða um ESB og þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina. „Ég held að allir séu á því, það er bara spurning um hvenær hún verður, á hvaða stigi málsins," segir Atli.

Spurður hvort ekki sé vit í því að athuga hvað sé í boði hjá ESB, áður en aðild er hafnað, segir Atli að hann telji að „við vitum 95 prósent hvað við fáum". En sakar að ganga úr skugga um það? „Nei, nei. Það er líka inni í umræðunni að skoða það betur," segir hann.

En hvaða leið telur Atli betri, til dæmis í gjaldeyrismálum, en ESB-aðild? „Það eru ýmsar aðrar leiðir. Tenging við annan gjaldmiðil, dollarann eða norsku krónuna," segir hann.

Forsætisráðherra Noregs hefur hafnað myntsamstarfi ríkjanna tveggja, en Atli minnir á að ekki hafi verið látið reyna á þetta í samningaviðræðum. Eins komi til greina að taka upp evru án þess að ganga í ESB. Hann hefur þó ekki skoðað þessar leiðir sjálfur. - kóþ








Fleiri fréttir

Sjá meira


×