Erlent

Hátt á annað hundrað látnir

Mikill viðbúnaður í höfuðborginni Urumqi Átökin þykja sýna óánægju Úígúra með hlutskipti sitt í Kína.
fréttablaðið/AP
Mikill viðbúnaður í höfuðborginni Urumqi Átökin þykja sýna óánægju Úígúra með hlutskipti sitt í Kína. fréttablaðið/AP

Að minnsta kosti 156 manns biðu bana og yfir 800 særðust á sunnudag í harðvítugum átökum, sem brutust út í kjölfar mótmælasamkomu í Urumqi, höfuðborg Xinjiang-héraðs vestast í Kína.

Búist er við frekari mótmælum og átökum. Í gær bárust fréttir af því að mótmæli væru hafin í Kashgar, annarri borg í sama héraði.

Átökin eru sögð standa milli Úígúra, sem eru fjölmennastir íbúa héraðsins, og Han-Kínverja, sem eru í minnihluta í héraðinu en í meirihluta í höfuðborginni Urumqi. Han-Kínverjar eru yfir níutíu prósent allra íbúa Kína.

Litlar skýringar hafa þó fengist á því hvers vegna svo margir hafa látist.

Lögregla segist hafa lokað götum í nokkrum hverfum Urumqi á sunnudag, eftir að átök voru hafin. Ríkissjónvarpið birti myndir þar sem mótmælendur sáust ráðast á og sparka í fólk sem lá á götunni. Á myndunum sást einnig fólk, sem virtist vera Han-Kínverjar, sitja örmagna í blóði sínu.

Útlægir Kínverjar halda því hins vegar fram að átökin hafi ekki byrjað fyrr en lögreglan hóf að beita ofbeldi til að stöðva friðsamleg mótmæli.

Spenna hefur lengi verið mikil milli Han-Kínverja og Úígúra í Xinjiang. Úígúrar hafa margir barist fyrir því að héraðið verði sjálfstætt ríki Úígúra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×