Innlent

Lögreglan: Þjónustuskerðing vegna niðurskurðar

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir þjónustuskerðingu blasa við hjá lögreglu nái útgjaldalækkun ríkisstjórnarinnar til löggæslumála fram að ganga. Snorri var gestur í Reykjavík síðdegis í gær.

Að hans sögn nemur niðurskurðurinn á höfuðborgarsvæðinu 57,1 milljón það sem eftir lifir árs og allt að 320 milljónum á næsta ári.

„Það verður engan veginn hægt að mæta því nema með einhverslags skerðingu á þeirri þjónustu sem lögreglan veitir í dag," segir Snorri.

„Allan þann tíma sem við erum búin að vera hér í ákveðinni uppsveiflu í þjóðfélaginu þá hefur verið niðurskurður hjá lögreglu. Það hefur orðið raunfækkun um sennilega 50 lögregluþjóna á höfuðborgarsvæðinu."

Hann segir erfitt að eiga við enn meiri niðurskurð nú þegar verkefnum lögreglu fjölgar. Hann bendir á að sömu lögmál eigi ekki við um löggæslu og venjulegan rekstur, þar sem viðskipti dragast saman í kreppu.

Hann segir áhrif niðurskurðarins strax komin fram. Álag á lögreglumenn sé mikið, hann telur að veikindi hafi aukist og viðbragðstími hugsanlega lengst.

„Þetta álag er farið að segja verulega til sín," segir Snorri.

Aðspurður segist Snorri þó ekki óttast stjórnleysi, en segir þó ljóst að niðurskurðurinn komi niður á þeirri þjónustu sem lögreglan á að veita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×