Innlent

Fundur fjárlaganefndar og InDefence gekk vel

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson Mynd/Vilhelm
Fjárlaganefnd og fulltrúar InDefence hópsins funduðu í morgun um frumvarp vegna ríkisábyrgðar á Icesave. Gekk fundurinn vel að sögn Helga Áss Grétarssonar, eins forgöngumanna InDefence. Ásamt Helga sátu fundinn þeir Eiríkur Svavarsson, lögmaður, og Sigurður Hannesson, doktor í stærðfræði. Fundurinn stóð í einn og hálfan tíma.

„Við fórum þarna yfir samninginn lið fyrir lið og útskýrðum hvað við teljum að hann hafi í för með sér efnahagslega," segir Helgi.

Sigurður hefur unnið útreikninga á skuldabyrði og greiðslugetu Íslands í tengslum við Icesave. Auk þess hefur hópurinn rýnt í samninginn frá lögfræðilegum sjónarhóli, meðal annars með aðstoð erlenda sérfræðinga á borð við Michael Waibel, kennara við lögfræðideild Cambridge háskóla.

„Ég held að við höfum komið að málefnalegum rökum. Svo eru það stjórnmálamenn sem taka afstöðu til þeirra," segir Helgi. Aðspurður hvort hann telji að tekið verði mark á athugasemdum hópsins segir Helgi það verða að koma í ljós.

Fulltrúar InDefence koma einnig til með að funda ásamt bæði efnahags- og skattanefnd og utanríkismálanefnd í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×