Innlent

Landhelgisgæslan dregur úr starfsemi - á þriðja tug sagt upp

Mynd/Daníel Rúnarsson

Í ljósi erfiðs rekstrarumhverfis er einsýnt að draga þarf úr allri starfsemi Landhelgisgæslu Íslands. Dregið verður úr útgerð varðskipa, flugi, sjómælingum sem og annarri starfsemi. Fyrirhugað er að segja upp á bilinu 20 til 30 manns. Uppsagnir starfsmanna og aðrar breytingar í starfsmannahaldi munu snerta allar deildir Landhelgisgæslunnar.

Aðgerðirnar ,,miðast þó við að halda björgunargetu eins óskertri og mögulegt er," líkt og fram kemur í tilkynningu. Hjá Landhelgisgæslunni starfa að jafnaði um 160 manns í lofti, láði og legi.

Farið hefur verið yfir rekstur hverrar deildar með hliðsjón af millifærslu verkefna og ýmsum hagræðingarmöguleikum. Kannaður hefur verið hugur þeirra starfsmanna sem náð hafa réttindum til að hefja töku lífeyris um möguleikann á því.

,,Einnig hefur öllu starfsfólki verið gefinn kostur á að óska eftir launalausu leyfi eða minnkuðu starfshlutfalli. Auk þess hefur Landhelgisgæslan aðstoðað starfsmenn við að komast í vinnu erlendis og hefur slíkt borið nokkurn árangur," segir í greinargerð sem fulltrúar starfsmanna fengu afhenta á fundi fyrr í dag vegna fyrirhugaðra uppsagna hjá Landhelgisgæslunni.

Helstu þættir sem snúa að samdrætti og lækkun kostnaðar eru eftirfarandi:

• Úthaldsdögum varðskipa verður fækkað.

• Öllu flugi verður haldið í lágmarki eins og kostur er miðað við nauðsynlega þjálfun.

• Sjómælingabáturinn Baldur verður lítið gerður út sumarið 2009 og dregið úr verkefnum sjómælingadeildar almennt.

• Allri annarri starfsemi hagrætt eins og kostur er og útgjöldum haldið í algjöru lágmarki.










Tengdar fréttir

Uppsagnir hjá Landhelgisgæslunni

Um tuttugu starfsmönnum Landhelgisgæslunnar verður sagt upp störfum um næstu mánaðamót. Boðað hefur verið til starfsmannafundar á morgun þar sem þetta verður tilkynnt formlega en um 160 manns vinna nú hjá Landhelgisgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×