Innlent

Vonskuveður í nótt og í fyrramálið

Núna strax í kvöld má búast við austanstormi við suður- og suðausturströndina með hviðum í námunda við fjöll upp á meira en 35 m/s ásamt snjókomu eða slyddu, en þó rigningu allra syðst á landinu.

Strax þegar líður á nóttina má búast við stormi víða um land, síst þó á Austurlandi og má gera ráð fyrir kafaldsbyl og stórhríð víða um land sem nær hámarki snemma í fyrramálið. Í höfuðborginni gæti orðið mjög hvasst með snjókomu og síðar slyddu. ástandið verður einna verst við Breiðafjörð á Vestfjörðum og vestan til á Norðurlandi. Að sögn Sigurðar Þ. Ragnarssonar veðurfræðings er gríðarmikil ofankoma í þessu sem er fyrst og fremst snjór eða slydda, en með morgninum blotnar í þessu sunnan til á landinu. Veðrinu slotar víðast hvar upp úr hádeginu á morgun.

Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir að lítið sem ekkert ferðaveður sé á landinu í nótt, sérstaklega seint í nótt. Það sé hreinlega hættusamt að vera á ferli fjarri mannabústöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×