Erlent

Bretar notuðu reiðufé meira en kort í fyrra

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bretar, og án efa fleiri þjóðir, kjósa að nota reiðufé frekar en greiðslukortin til að hafa betri yfirsýn yfir hve miklu þeir eyða. Rannsókn samtaka smásöluverslana í Bretlandi leiddi í ljós að 56 prósent allra greiðslna sem inntar voru af hendi í verslunum í fyrra voru í peningum.

Auk þess að veita neytendum gleggri sýn á eyðsluna er auðvitað ódýrast að nota reiðufé segir Stephen Robertson, framkvæmdastjóri samtakanna. Þá er ekki um neitt færslugjald að ræða eins og oft fylgir greiðslukortum.

Robertson reiknar út að ef allar greiðsluleiðir væru eins ódýrar og að borga með peningum gæti það sparað neytendum hvorki meira né minna en 800 milljónir punda á ársgrundvelli og um leið orðið til þess að lækka vöruverð í verslunum.

Hann segir það miklar ýkjur að reiðufé sé á hröðu undanhaldi á öld kortaviðskipta og gagnrýnir bankana fyrir að reka áróður fyrir kortanotkun sem þeir sjálfir græði mest á í formi færslu- og þjónustugjalda ýmiss konar. Í raun græði neytandinn sjálfur minnst nema þægindin af því að vera með plastkort í stað seðla og myntar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×