Lífið

Eurovison-leikstjóri gerir dramamynd

Fyrsta kvikmynd Baldvins Z, Órói, er á teikniborðinu. Hún verður hugsanlega tekin upp á þessu ári. 
fréttablaðið/arnþór
Fyrsta kvikmynd Baldvins Z, Órói, er á teikniborðinu. Hún verður hugsanlega tekin upp á þessu ári. fréttablaðið/arnþór

„Þetta er algjörlega frábært. Maður er kampakátur með þetta,“ segir leikstjórinn Baldvin Zophoníasson, eða Baldvin Z. Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Órói, hefur fengið vilyrði fyrir framleiðslustyrk hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Um dramamynd er að ræða en Baldvin vill ekkert láta hafa eftir sér um söguþráðinn í bili.

„Þetta eru blendnar tilfinningar,“ segir hann um vilyrðið. „Mann hlakkar til og maður er spenntur en þetta er bara einn hundraðasti af sigrinum. Það á eftir að gera gott úr þessu.“

Á ferilsskrá Baldvins eru tvö síðustu Eurovision-myndbönd Íslands sem bæði hafa fengið góðar viðtökur. Það fyrra gerði hann fyrir Eurobandið og það síðara fyrir Jóhönnu Guðrúnu. Var hið fyrrnefnda kjörið næstbesta Eurovision-myndband síðasta árs í erlendri könnun. Einnig hefur Baldvin unnið að myndböndum fyrir MTV og við auglýsingagerð. „Þetta er allt góð reynsla, sama hvað það er; auglýsingar, tónlistarmyndbönd eða stuttmyndir. Allt fer þetta í sama bankann að lokum,“ segir hann.

Í janúar stofnaði Baldvin fyrirtækið Zeta Productions sem hefur þegar búið til auglýsingu fyrir Honey Nut Cheerios auk þess sem nýjar Goða-auglýsingar eru á leiðinni.

Baldvin skrifaði handritið að Óróa með leikkonunni Ingibjörgu Reynisdóttur en framleiðandi myndarinnar verður Kvikmyndafélag Íslands, hið sama og gefur út Reykjavík Whale Watching Massacre. Ekki er búið að ákveða hvenær tökur hefjast á myndinni en líklega verður það síðar á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.