Innlent

Konum fjölgar meðal skólastjóra

Úr kennslustund í Grunnskóla Seltjarnarness.
Úr kennslustund í Grunnskóla Seltjarnarness.

Haustið 2007 voru konur í fyrsta skipti í meirihluta meðal skólastjóra. Haustið 2008 hefur konum meðal skólastjóra fjölgað enn frekar og eru nú 54,8% skólastjóra. Eina starfsstéttin innan grunnskólans þar sem karlar eru í meirihluta eru húsverðir. Þetta kemur fram í gagnasöfnun Hagstofu Íslands sem safnar upplýsingum um starfsfólk í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Starfsfólki við kennslu fjölgar þrátt fyrir fækkun nemenda



Haustið 2008 voru 7858 starfsmenn í grunnskólum á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 232 frá hausti 2007 eða um 3,0%. Stöðugildum starfsmanna við kennslu hefur fjölgað um 13 eða um 0,3%, sem þýðir að hver kennari vinnur skemur að meðaltali en árið áður, samkvæmt Hagstofunni. Starfsmönnum við kennslu fjölgar þó að grunnskólanemendum hafi fækkað um 330 frá síðasta skólaári.

Tæplega 85% hafa kennsluréttindi

Á vef Hagstofunnar kemur fram að alls hafa 84,8% starfsmanna við kennslu kennsluréttindi og er það óbreytt hlutfall frá fyrra ári. Haustið 2005 var þetta hlutfall hæst, 86,7%, og hefur því hlutfall réttindakennara lækkað um tæplega tvö prósentustig á þessum þremur árum.

Hæst er hlutfall réttindakennara á landinu í Reykjavík þar sem 91,5% kennara hafa kennsluréttindi. Lægst er hlutfall réttindakennara á Austurlandi og Vestfjörðum þar sem 66,7% og 68,5% kennara hafa kennsluréttindi. Hlutfall réttindakennara á Vestfjörðum hefur hækkað um 4,6% frá hausti 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×