Innlent

Yfirstjórnin nýtur lítils trausts meðal starfsmanna

Yfirstjórn Nýja Kaupþings nýtur lítils trausts meðal starfsmanna samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum könnunar sem gerð var meðal starfsmanna bankans.

Í gegnum árin hafa verið gerðar kannanir hjá Kaupþingi sem meðal annars gefa vísbendingar um starfsanda og menningu í bankanum. Capacent Gallup gerði nýverið slíka könnun meðal starfsmanna hjá hinum nýja banka, en margt hefur breyst í efnahagsþrengingunum, og var því nýjum spurningum bætt við og öðrum breytt í ljósi aðstæðna.

Berghildur Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Kaupþings, segir bráðabirgðaniðurstöður liggja fyrir, en þær séu trúnaðarupplýsingar enn sem komið er, enda sé ekki búið að fullvinna upplýsingarnar úr könuninni. Aðspurð um hvort stjórn Nýja Kaupþings og bankastjóri njóti lítils trausts meðal starfsmanna, segir hún rétt að mælingar á trausti hafi ekki komið jafn vel út og í fyrri könnunum. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig, en sagði þó að margir jákvæðir þættir hefðu einnig komið fram.

Talsverð hreyfing hefur verið á starfsfólki Kaupþings að undanförnu, bæði hefur starfsmönnum verið sagt upp og þeir hætt af sjálfsdáðum, og hefur fréttastofan heimildir fyrir því að nokkurrar óánægju gæti í bankanum, ekki síst vegna þess að stjórnun þyki losaraleg. Um 900 manns vinna nú hjá Kaupþingi, en starfsmönnum hefur fækkað um nærri hundrað og níutíu síðan bankinn fór undir stjórn ríkisins. Fimm stjórnendur bankans sögðu upp störfum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×