Erlent

Niðurlægði og misþyrmdi

Gengur fram fyrir skjöldu og viðurkennir þátttöku í misþyrmingum á föngum Bandaríkjahers.
fréttablaðið/AP
Gengur fram fyrir skjöldu og viðurkennir þátttöku í misþyrmingum á föngum Bandaríkjahers. fréttablaðið/AP

Bandaríski hermaðurinn Brandon Neely segist hafa verið hræddur í janúar árið 2002, þegar hann tók á móti fyrstu föngunum sem komu til fangabúða Bandaríkjahers við Guantanamoflóa á Kúbu.

Honum hafði verið sagt að búast við illskeyttum hryðjuverkamönnum, og byrjaði á því að grípa harkalega í gamlan mann, sem var skjálfandi á beinunum, varpa honum niður á jörðina og reka andlit hans beint niður í steinsteypt plan.

Hann segir þetta aðeins fyrstu niðurlæginguna af mörgum, sem hann tók þátt í og varð vitni að á fyrstu dögum og vikum þessara illræmdu fangabúða. Nú vill hann segja frá öllu, upplýsa heiminn um sektarkennd sína og skömm vegna þess sem hann upplifði þegar bandarískir hermenn tóku á móti föngunum, sem taldir voru ýmist meðlimir í al-Kaída eða talibanar.

Hann segir fyrstu vikurnar og mánuðina hafa einkennst af mikilli ringulreið. Búðirnar hafi verið settar upp í flýti og fyrstu fangarnir voru settir í búr, sem höfðu verið notuð áratug fyrr undir innflytjendur frá Haítí.

„Flestir okkar, sem fengust við fangana dags daglega, voru mjög ungir,“ segir Neely. Þeir hafi lítið sem ekkert vitað um ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga um meðferð fanga, þótt sumir hafi reynt að kynna sér þau upp á eigin spýtur.

Einungis fáeinir mánuðir voru liðnir frá árásunum 11. september og hann segir að margir fangavarðanna hafi verið í hefndarhug. Misþyrmingar á föngunum segir hann hafa verið algengar, einkum barsmíðar og niðurlæging af ýmsu tagi.

„Ef Guantanamo hefur kennt okkur eitthvað,“ segir Jennifer Daskal hjá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch, „þá er það mikilvægi þess að fara að reglum réttarríkisins.“

Bandaríkjaher segist þó hafa gert sér far um að tryggja að fangarnir fengju mannúðlega meðferð. Það hafi alltaf verið stefnan. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur heitið því að loka búðunum innan árs, en óljóst er enn hvað verður um þá 245 fanga sem enn dvelja þar.

Neely er frá Texas og var fangavörður í Guantanamo í hálft ár. Hann var einnig eitt ár í hernum í Írak, en losnaði úr hernum á síðasta ári.

Nú starfar hann sem lögreglumaður í Houston og er einnig framámaður í samtökum bandarískra hermanna gegn Íraks­stríðinu.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×