Innlent

Sprengisandur að opnast

Sprengissandsleið um Bárðardal opnast síðdegis á morgun eða á miðvikudagmorgun.

Veghefill frá Vegagerðinni á Húsavík lagði af stað upp á Sprengisand í morgun í þeim tilgangi að lagfæra veginn og ryðja burt síðustu hindrunum.

Ingólfur Árnason, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík, segir að í hlýindunum síðustu daga hafi snjó tekið hratt upp á hálendinu og nú sé það aðallega aurbleyta sem geti verið til vandræða.

Ingólfur býst við að unnt verði að gefa það út annaðhvort síðdegis á morgun eða á miðvikudagsmorgun að Sprengissandsleið sé orðin fær.

Í síðustu viku var vegurinn opnaður að sunnaverðu, frá Vatnsfellsvirkjun og að Nýjadal.

Með opnun Sprengisands eru helstu hálendisvegir orðnir færir, þar á meðal Kjölur, Kaldidalur, leiðin í Kverkfjöll og Fjallabaksleiðir að hluta. Gæsavatnaleið er þó áfram lokuð sem og leiðir upp á Sprengisand úr Eyjafirði og Skagafirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×