Innlent

Vill hóflega vegtolla til að byggja upp vegakerfið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Róbert Marshall telur að innheimta hóflegra vegtolla gætu verið skynsamleg leið til að fjármagna nýjar framkvæmdir í vegagerð. Mynd/ Pjetur.
Róbert Marshall telur að innheimta hóflegra vegtolla gætu verið skynsamleg leið til að fjármagna nýjar framkvæmdir í vegagerð. Mynd/ Pjetur.
„Mér finnst þessi hugmynd þess virði að hún sé skoðuð," segir Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður samgöngunefndar Alþingis um vegtolla á helstu stofnbrautir.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá því á miðvikudaginn að vegatollur á allar stofnbrautir út úr Reykjavík, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut, væri nú til skoðunar í viðræðum stjórnvalda og lífeyrissjóða um fjármögnun á breikkun Suðurlandsvegar.

„Fólk hefur tilhneigingu til að ætla að átt sé við vegatolla á borð við Hvalfjarðargöng þegar þessi umræða fer af stað. En ef hófleg veggjöld, eins og til dæmis hundrað krónur, væru innheimt til þess að koma framkvæmdum í gang við tvöföldun suðurlandsvegar þá finnst mér það koma til greina," segir Róbert.

Hann segir að þá væri hægt að samræma gjaldtöku á milli Vesturlandsvegar, Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar og fara í tímabundið átak sem miðaði að því að koma þessu brýna umferðaröryggismáli af stað. „Eins þætti mér vert að skoða framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í þessu samhengi. Ef menn ætla í gerð Sundabrautar þá væri hægt að fjármagna hana með því að búa til innri hring á höfuðborgarsvæðinu þannig að umferð úr úthverfum og nágrannabyggðarlögum greiddi fyrir þessa framkvæmd," segir Róbert. Hann segir að hægt væri að nýta GPS tækni til að innheimta gjaldið sem vel sé hægt að framkvæma og mæta um leið sjónarmiðum persónuverndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×