Innlent

Ný flugstöð við hlið afgreiðslu Flugfélagsins til skoðunar

Sá valkostur að reisa nýja innanlandsflugstöð í Reykjavík við hlið núverandi Flugfélagsafgreiðslu, í stað samgöngumiðstöðvar norðan Loftleiðahótels, er til skoðunar hjá verkefnisstjórn. Samgönguráðherra vonast til að niðurstaða fáist sem fyrst svo framkvæmdir geti hafist í vetur.

Ekkert bólar á framkvæmdum og raunar vita menn ekki ennþá hvar samgöngumiðstöðin mun rísa, þótt framkvæmdalisti stöðugleikasáttmálans í vor miðaði við að vinnan færi á fullt í haust. Mest hefur verið horft á staðsetningu norðan Loftleiðahótels en þegar Reykjavíkurborg í sumar færði legu götunnar Hlíðarfótar, sem verið er að leggja þessa dagana, taldi verkefnisstjórn svo þrengt að samgöngumiðstöðinni að hún kæmist illa fyrir á lóðinni.

Verkefnisstjórnin hefur því einnig verið að skoða þann kost að byggja fremur nýja innanlandsflugstöð milli núverandi afgreiðslu Flugfélags Íslands og flugskýlis félagsins, sem myndi einnig þjóna rútuumferð til Leifsstöðvar, en yrði að öðru leyti ekki samgöngumiðstöð.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að hingað til mest verið unnið út frá því að reisa miðstöðina norðan við Loftleiðahótelið. Flugrekstraraðilar hafi bent á það að vinna mætti þetta á ódýrari hátt með minni byggingu á núverandi svæði Flugfélagsins. Þessa tvo valkosti sé verið að vinna með.

Hann vill ekkert segja um hvor kosturinn teljist nú líklegri. Hann vonist bara til að niðurstaða fáist svo menn geti komist sem fyrst af stað við að byggja þarna samgöngumiðstöð, sem sé landi og þjóð til sóma, og að hægt verði að leggja af þá skúra sem í dag kallast flugstöð á Reykjavíkurflugvelli.

En hvenær gætu smiðshöggin farið að heyrast? Næsta vor, eða jafnvel í vetur, svarar ráðherrann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×