Enski boltinn

Ramos er feginn að þurfa ekki að mæta Keane

NordicPhotos/GettyImages

Juande Ramos þjálfari Real Madrid segist ekki skilja af hverju landi hans Rafa Benitez gat ekki notað Robbie Keane í liði Liverpool.

Liverpool og Real Madrid eigast við í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og Ramos hitar prýðilega upp fyrir viðureignina með yfirlýsingum sínum um Robbie Keane í samtali við Sun.

Ramos hafði Robbie Keane sem kunnugt er í sínum röðum þegar hann stýrði Tottenham á sínum tíma og hann skilur ekki af hverju Benitez gat ekki notaði írska landsliðsmanninn.

"Það þýðir ekkert að segja mér að Robbie muni ekki skora mörk hjá toppliði. Hann er toppleikmaður og hann stóð sig ekki illa hjá Liverpool að mínu mati. Hann skoraði mörk og sýndi að hann er góður liðsmaður. Hann er maður sem getur klárað leiki fyrir hvaða lið sem er og ef hann væri enn hjá Liverpool, væri ég að vara varnarmenn mína við honum núna," sagði Ramos.

Hann segir Benitez hafa tekið mikla áhættu með því að láta Keane fara aftur til Tottenham í janúar.

"Þú vilt ekki missa leikmenn í janúar nema þeir vilji fara frá félaginu því tímabilið er langt. Þeir töpuðu miklum peningum á stuttum tíma, sérstaklega eins og markaðurinn er í dag. Við skulum bara segja að ég hefði ekki viljað tapa þessum peningum á einum leikmanni. Kannski hefði Liverpool átt að halda Robbie í það minnsta fram á sumarið og sjá svo til," sagði Ramos.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×