Enski boltinn

Við erum enn ekki búnir að eyðileggja fótboltann

NordicPhotos/GettyImages

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City, brást rólegur við þegar hann var spurður út í yfirlýsingar Stale Solbakken, þjálfara FC Kaupmannahafnar í fyrradag.

Solbakken, sem áður lék með Wimbledon, lét þau orð falla á blaðamannafundi í fyrradag að Manchester City væri að eyðileggja fótboltann vegna þeirra stjarnfræðilegu upphæða sem félagið væri tilbúið að greiða fyrir knattspyrnumenn.

Hughes kippti sér ekki mikið upp við ummælin. "Já, hann er málglaður, finnst ykkur ekki?" sagði Hughes við blaðamenn Manchester Evening News.

"Við höfum haft aðgang að þessum peningum í fimm eða sex mánuði og ég held að við höfum enn ekki eyðilagt fótboltann, svo við gerum það varla héðan af. Menn hafa ekki verið að tala neitt um City undanfarin ár, en í dag hafa allir skoðanir á félaginu þegar verið er að tala um knattspyrnu yfir höfuð. Það er eins og verið sé að reyna að koma á okkur höggi, því ég verð ekki var við að við höfum verið hrokafullir," sagði Hughes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×