Erlent

Segja ómögulegt að stöðva útbreiðslu svínaflensu

Guðjón Helgason skrifar
Tamiflu
Tamiflu

Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir ómögulegt að stöðva útbreiðslu svínaflensunnar um allan heim. Bretar spá því að hundrað þúsund ný tilfelli greinist á degi hverjum frá lokum sumars.

Í flestum tilvikum reynast svínaflensusmit væg. Heilbrigðissérfræðingar hafa helst áhyggur af því að flensan eigi eftir að stökkbreytast á leið sinni um heiminn verða skæðari þegar næsta flensutímabill skellur á Evrópu og víðar. Þegar hefur greinst tilfelli svínaflensunnar í Danmörku þar sem um væg einkenni var að ræða en bóluefnið Tamiflu beit hins vegar ekki á flensunni. Þar mun um ákveðna stökkbreytingu að ræða. Verið er að vinna að framleiðslu nýrra bóluefna gegn flensunni.

Alþjóða heilbriðgismálastofnunin fundaði í Cancun í Mexíkó um flensuna sem fyrst greindist þar í landi í voru. Þar lagði Margret Chan, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, áherslu á að flest tilfelli svínaflensu væri væg og margir jöfnuðu sig að fullu án nokkurrar aðstoðar. Það sem væri að valda áhyggjum væri hve hratt hún breiddist út en það er grundvöllur þess að farið var á efsta viðbúnaðarstig og lýst yfir heimsfaraldri. Chan segir að nú sé ómögulegt að stöðva útbreiðslu flensunnar sama í hvaða formi hún sé og verði.

Bretar spá því að hún eigi eftir að breiðast hratt út þar í landi og telja að í lok sumars muni hundrað þúsund ný tilfelli greinast á degi hverjum.

Fundað verður áfram um flensuna og baráttuna gegn henni í Mexíkó um helgina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×