Enski boltinn

Ferguson veðjaði á reynsluna

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson tefldi fram eins reyndu liði og hann gat þegar hans menn í Manchester United sóttu West Ham heim í ensku úrvalsdeildinni.

Eins og svo oft áður voru það hestarnir sem Ferguson veðjaði á sem komu fyrstir í mark, því goðsagnirnar Ryan Giggs og Paul Scholes voru mennirnir á bak við markið sem sá fyrrnefndi skoraði og skildi liðin að í dag.

"Ég vissi að okkur hefði oft gengið illa að sækja stig hingað og því fannst mér ráðlegt að hafa eins reynda leikmenn á vellinum og ég gat. Giggs og Scholes hafa oft komið hingað áður og þeir vita hvað til þarf. Carrick, Tevez og Rio eru líka fyrrum leikmenn West Ham og það hjálpar okkur að ráða við andrúmsloftið," sagði Ferguson.

"Stemmingin var frábær á Upton Park í dag og áhorfendurnir stóðu vel við bakið á sínu liði. Við lögðum mjög gott West Ham lið í dag," sagði Ferguson.

Hann var þvínæst spurður út í metið hans Edwin van der Sar sem setti met með því að halda hreinu þrettánda leikinn í röð.

"Það hefur mikið verið talað um að við séum að halda hreinu, en það breytir ekki áherslum okkar. Við héldum boltanum vel og vorum með sókndjarfa menn inni á vellinum. Það sem varnarmennirnir okkar hafa gert er að halda einbeitingu. Þeir hafa bæði hraða og snerpu, en það er auðvitað frábært að hafa markvörð á borð við Edwin van der Sar á bak við þá," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×