Innlent

Bjartsýni eykst almennt

Ísland er á meðal sex landa þar sem svartsýni mælist mest í alþjóðlegri könnun.
Ísland er á meðal sex landa þar sem svartsýni mælist mest í alþjóðlegri könnun.
Svartsýni er mun meiri hér en í öðrum löndum og eru Íslendingar líklegri til að upplifa þunglyndi vegna efnahagsþrenginganna en í öðrum löndum, samkvæmt niðurstöðum ársfjórðungslegrar könnunar WIN, samtaka óháðra alþjóðlegra markaðsrannsóknafyrirtækja á áhrifum efnahagskreppunnar hér og í 23 öðrum löndum.

Niðurstöðurnar benda til þess að 42 prósent landsmanna hafi fundið fyrir depurð á þessu ári í kjölfar efnahagshrunsins. Meðaltal þátttökulandanna er sautján prósent. Þá benda niðurstöðurnar til þess að bjartsýni sé almennt að aukast á sama tíma í öðrum löndum og svartsýni eykst hér.

Meginniðurstaðan á heimsvísu er sú að fólk er almennt bjartsýnna en í fyrri könnunum. Það sýnir minna aðhald í eyðslu og lítur framtíðina bjartari augum en fyrr á árinu. Í samanburði við önnur lönd eru Íslendingar almennt svartsýnir á ástandið en þó virðist bjartsýnin vera að aukast hægt og bítandi.

Mesta bjartsýnin mældist í Ástralíu, Austurríki, Brasilíu, Kanada og í Kúvæt. Íbúar í Argentínu, Búlgaríu, Frakklandi, Mexíkó og Rúmeníu voru svartsýnastir á sama tíma ásamt Íslendingum.

Í tengslum við könnunina var rætt við 23.659 einstaklinga í öllum þátttökulöndum frá miðjum september til loka síðasta mánaðar. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×