Innlent

Hefur gengið vonum framar

Yfirlögfræðingur hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga er ánægður með innheimtuhlutfall meðlagsgreiðslna fyrstu tvo mánuði ársins. fréttablaðið/pjetur
Yfirlögfræðingur hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga er ánægður með innheimtuhlutfall meðlagsgreiðslna fyrstu tvo mánuði ársins. fréttablaðið/pjetur

„Þetta hefur gengið vonum framar hingað til og við getum ekki verið annað en sátt, því við höfðum reiknað með meiri samdrætti. En auðvitað eru blikur á lofti hér eins og annars staðar,“ segir Jón Ingvar Pálsson, yfirlögfræðingur hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem sér um innheimtu meðlagsgreiðslna. Innheimtuhlutfall greiðslnanna hefur lækkað í kringum ellefu prósent frá því á sama tíma á síðasta ári.

Að sögn Jóns Ingvars innheimti stofnunin meðlagsgreiðslur að upphæð 416 milljónir króna fyrstu tvo mánuði þessa árs, miðað við 426 milljónir í fyrra. Upphæð greiðslnanna hækkaði um 9,6 prósent um áramótin. Sé sú hækkun tekin með er innheimtuhlutfallið nú um 69 prósent, en var 80 prósent.

Jón Ingvar segir að í ljósi efnahagsástandsins sé hátt innheimtuhlutfall verðugt rannsóknarefni fyrir félagsfræðinga. „Í gegnum árin hefur það virst sem svo að verðmætamat fólks breytist í niður­sveiflum, þegar þrengir að. Fólk hugsar kannski frekar um að framfæra börnin sín en að kaupa sér vélsleða eða eitthvað slíkt. En þetta eru auðvitað bara vangaveltur.“

Jón Ingvar segir mikið um að atvinnulaust fólk leiti til stofnunarinnar og óski eftir greiðslufresti. „Það er tekið vel í það hjá fólki í þessu ástandi,“ segir Jón Ingvar Pálsson.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×