Innlent

Skoða að beina frekar fé í LÍN en atvinnubætur

Menntamálaráðherra sagðist gera sér grein fyrir því að 106 þúsund krónur á mánuði væri afar lág framfærsla.
Menntamálaráðherra sagðist gera sér grein fyrir því að 106 þúsund krónur á mánuði væri afar lág framfærsla. Mynd/Anton

Til athugunar er hvort hagkvæmara væri að beina ríkisfé inn í Lánasjóð íslenskra námsmanna frekar en atvinnuleysistryggingasjóða til að laða fólk í nám. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra á Alþingi í gær.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Katrínu hvort til stæði að hækka lánin fyrir næsta skólaár, í það minnsta þannig að þau héldu í við verðþróun. „Það þarf að vera raunhæfur möguleiki að lifa á þessum lánum,“ sagði Jónína.

Katrín sagði að það eitt að verðbæta lánin myndi kosta ríkissjóð 1,4 milljarða. Það væri alveg ljóst að þeir peningar væru ekki til í menntamálaráðuneyti sem þyrfti að skera niður.

Hún sagði hins vegar að til skoðunar væri í menntamála- og félags- og tryggingamálaráðuneyti, hvort einhvers konar samspil Lánasjóðsins og atvinnuleysistryggingasjóðs væri mögulegt. Þannig kynni að vera hægt að bjóða námsmönnum upp á það að þiggja atvinnuleysisbætur, þótt þeir væru skráðir í námskeið.

Enn fremur væri í skoðun hvort það væri þjóðhagslega hagkvæmt að beina frekar auknu fé í Lánasjóðinn en í atvinnuleysistryggingasjóð. Þannig væri hugsanlega hægt að laða fólk í nám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×