Innlent

Ferill Geirs H. Haarde

Geir H. Haarde er tuttugasti og sjötti maðurinn sem gengt hefur embætti forsætisráðherra og hefur setið í embætti í þrjátíu og einn mánuð.

Geir H. Haarde verður 58 ára í apríl næst komandi. Hann hóf ungur afskipti af stjórnmálum, var formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna og aðstoðarmaður fjármálaráðherra áður en hann var fyrst kjörinn á Alþingi árið 1987. Hann hlaut skjótan frama, varð þingflokksformaður 1991 og fjármálaráðherra 1998.

Árið eftir var hann kosinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Geir var fjármálaráðherra í sjö ár eða til ársins 2005, þegar hann varð utanríkisráðherra við brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum og það ár varð Geir jafnframt formaður Sjálfstæðisflokksins.

En Geir stoppaði ekki lengi við í utanríkisráðuneytinu, því Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokskins sagði óvænt af sér forsætisráðherraembættinu í júní 2006 og Geir varð þá forsætisráðherra, tuttugasti og sjötti maðurinn til að gegna því embætti frá því Hannes Hafstein var skipaður ráðherra Íslands. Forsætisráðherratíð Geirs hefur verið viðburðarík. Í alþingiskosningum í maí 2007 hélt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks naumum meirihluta á þingi.

En fljótlega eftir kosningar tilkynnti Geir að hann ætlaði að ræða við Samfylkinguna og mynduðu þeir flokkar nýja ríkisstjórn nokkrum dögum síðar. Stjórnarsáttmáli þeirrar stjórnar var metnaðarfullur og setja átti mikla fjármuni í félagslega kerfið og alls kyns framkvæmdir.

En þau Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru ekki lengi í Paradís. Sautján mánuðum frá stjórnarmyndun má segja að Geir hafi formlega tilkynnt þjóðinni að mikil vá væri fyrir dyrum.

Mikil átök hafa verið í þjóðfélaginu síðan eins og alþjóð veit og nú þremur mánuðum eftir að forsætisráðherra bað Guð að blessa Ísland hefur hann tilkynnt um brotthvarf sitt úr íslenskum stjórnmálum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×