Erlent

Eldflaugaskot N-Kóreumanna í nótt

Norður-Kóreumenn greindu frá því í morgun að þeim hefði tekist að koma gervihnetti á sporbaug um jörðu. Eldflaug sem bar gervihnöttinn hafi verið skotið á loft og það heppnast vel. Flaugin fór yfir Japan.

Flest nágrannaríki Norður-Kóreu og vesturveldin segja að þetta hafi verið tilraun með langdræga eldflaug sem geti borið kjarnorkuvopn alla leið til Alaska og hafa fordæmt eldflaugarskotið. Neyðarfundur hefur verið boðaður í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í kvöld vegna málsins. Búist er við að Bandaríkjamenn og Japanar fari fram á að ráðið fordæmi geimskotið.

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að Norður Kóreumenn hafi brotið gegn ályktunum Sameinuðu þjóðanna sem banni þeir að skjóta eldflaugum á loft. Geimskotið í nótt hafi verið ögrun og með þessu séu ráðamenn í Pyongyang að einangra landið sitt enn frekar frá samfélagi þjóðanna. Kínverjar og Rússar hvetja ríki heims til að sýna stillingu í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×