Innlent

Soffía Vagnsdóttir: Ég er döpur yfir þessum vinnubrögðum

Valur Grettisson skrifar
Soffía Vagnsdóttir var metinn önnur af hæfustu umsækjundunum.
Soffía Vagnsdóttir var metinn önnur af hæfustu umsækjundunum.

„Ég á bara ekki orð yfir vinnubrögðunum þarna, þetta er bara pólitíkin í hnotskurn í dag," segir Soffía Vagnsdóttir, sem sótti um starf skólastjóra í Hópsskóla í Grindavík en fékk ekki.

Hún auk Maggýar Hrannar Hermannsdóttur voru taldar hæfastar í starfið samkvæmt Fræðslu- og uppeldisnefnd Grindavíkur sem tók ákvörðun um hæfið þeirra út frá skýrslu sem Capacent gerði um hæfi þeirra sjö umsækjanda sem sóttu um starfið.

Framsóknarflokkurinn mælti svo með Maggý Hrönn í starfið en Samfylkingin ákvað að tilnefna bæjarfulltrúa sinn og forseta bæjarstjórnar, Garðar Pál Vignisson í starfið. Hann var einn af fjórum umsækjendum sem þóttu hæfir í starfið, þó var hann ekki hæfastur að mati Capacent.

Framsóknarflokkurinn ákvað að sprengja meirihlutasamstarfið vegna málsins en Soffía segir það bara toppa fáránleika málsins.

„Ég er döpur yfir þessum vinnubrögðum," segir Soffía og bætir við að hún vonist til þess að börnin í Hópsskóla fái góðan og hæfan skólastjóra sem fyrst, málið sé helst bagalegt þeirra vegna.

Ef oddvitar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ná samkomulagi um meirihlutasamstarf þá verður Grindavíkurbær með tvo bæjarstjóra á biðlaunum. Fyrir er sjálfstæðismaðurinn Ólafur Örn Ólafsson á biðlaunum eftir að hann gerði einstaklega hagstæðan samning við bæinn um launakjör.

Að auki var það inn í samningi hans að bæjarfélagið þyrfti að leysa út húsnæði í hans eigu eftir að hann léti af störfum myndi það ekki seljast eftir ákveðinn tíma.

Samkvæmt Víkurfréttum, sem fyrstir sögðu frá slitum bæjarstjórnarinnar, þá kostuðu fyrri bæjarstjóraskipti 20 milljónir króna.








Tengdar fréttir

Meirihlutaslit: Svekkjandi ef þetta endar svona

„Mér finnst það fulllangt gengið í pólitísku harki að menn fái ekki að sækja um störf," segir Garðar Páll Vignisson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Grindavík og forseti bæjarstjórnar. Framsóknarmenn slitu formlega samstarfi flokkanna með bréfi sem þeir sendu Samfylkingunni í gær.

Tvær konur hæfari en bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Tvær konur voru hæfari en bæjarfulltrúinn Garðar Páll Vignisson til þess að gegna starfi skólastjóra við Hópsskóla í Grindavík. Þetta kemur fram í fundargerð Fræðslu- og uppeldisnefndar Grindarvíkurbæjar.

Meirihlutinn í Grindavík sprunginn

„Hún er bara sprungin," sagði bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í Grindavík, Sigmar Eðvarsson, um stöðu meirihluta bæjarstjórnar í bænum. Svo virðist sem meirihlutinn, sem samanstóð af Framsóknarflokknum og Samfylkingunni, sé einfaldlega sprunginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×