Innlent

Þyrlan lenti með þær slösuðu í Reykjavík

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, lenti við Borgarspítalann um hálfþrjúleytið með tvær erlendar konur, sem slösuðust þegar bíll valt út af hringveginum á Breiðamerkursandi.

Slysið varð um hálftíuleytið í morgun, um fimm kílómetra austan við Jökulsárlón. Talið er að ökumanni hafi fatast aksturinn í hálku en bíllinn fór eina og hálfa veltu.

Fimm útlendingar voru í bílnum og komust þrír þeirra af eigin rammleik úr flakinu en tveir voru fastir. Önnur konan var fyrst flutt með sjúkrabíl til Hafnar í Hornafirði en annar sjúkrabíll lagði af stað með hina konuna áleiðis til Reykjavíkur til móts við þyrluna, sem tók við konunni á Kirkjubæjarklaustri um hálftólfleytið.

Þyrlan var rétt farin í loftið til Reykjavíkur þegar henni var snúið við aftur að Klaustri til að taka um borð lækni, sem fylgt hafði konunni í sjúkrabílnum, og flytja hann til Hornafjarðar, til að sinna þar veiku barni en enginn læknir var þá á Höfn vegna umferðarslyssins.

Þegar þyrlan lenti á Höfn var hin konan úr bílslysinu við Jökulsárlón þangað komin og var brugðið á það ráð að þyrlan tæki hana einnig um borð og flytti hana með samferðakonu sinni til Reykjavíkur. Báðar eru konurnar með höfuðáverka en þær voru í bílbelti og eru ekki taldar alvarlega slasaðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×