Innlent

Handtekinn í Ráðhúsinu: „Þetta var hálf skrýtið"

Breki Logason skrifar
Jón Bjarki Magnússon.
Jón Bjarki Magnússon.
Jón Bjarki Magnússon er einn þriggja sem handtekinn var á pöllum Ráðhúss Reykjavíkur um fimmleytið í dag en þar var sala á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku samþykkt. Jón Bjarki þurfti að dúsa á lögreglustöðinni í þrjá tíma en honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu. Hann segir handtökuna hafa verið hálf skrýtna.

„Ég var bara nýkominn þarna þegar lögreglan ætlaði að handtaka félaga minn. Þá greip ég í hann og hélt utan um hann. Ætlli það hafi ekki síðan liðið um mínúta þar til ég var handtekinn, þetta var hálf skrýtið," segir Jón Bjarki í samtali við Vísi.

Jón Bjarki var að koma úr skólanum og ákvað að kíkja við í Ráðhúsinu, en þar var nokkuð þétt setið í dag. „Ég eiginlega hló bara, það var hálf fáránlegt að vera handtekinn fyrir þetta."

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jón Bjarki er handtekinn í mótmælum því hann var einnig handtekinn þegar mótmælin við Alþingishúsið stóðu sem hæst.

Jón Bjarki komst áður í fréttirnar þegar störfum hans sem blaðamaður á ristjórn DV lauk skyndilega og fékk hann þá viðurnefnið „Litli DV-maðurinn". Jón Bjarki kom síðar í Kastljósið með upptöku af samtali sínu við Reyni Traustason ritstjóra þar sem sá síðarnefndi talaði meðal annars um að taka Björgólf Guðmundsson niður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×