Lífið

Spilar í Andy Warhol-safni

Tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson er á leið í sína fyrstu tónleikaferð um Bandaríkin undir eigin nafni.
Tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson er á leið í sína fyrstu tónleikaferð um Bandaríkin undir eigin nafni.
Jóhann Jóhannsson er á leiðinni í sína fyrstu tónleikaferð um Bandaríkin í júní undir eigin nafni. Á meðal viðkomustaða er safn listamannsins fræga Andy Warhol í Pittsburgh.

„Þetta er spennandi. Þetta er búið að standa lengi til og það er frábært að þetta hafi allt smollið saman svona tímalega og gengið upp," segir Jóhann, sem hefur áður ferðast um Bandaríkin með Apparat Organ Kvartett og öðrum sveitum.

Með honum í för verða Matthías Hemstock og strengjakvartett frá New York. Tónleikarnir verða sex talsins, aðallega í leikhúsum, kirkjum og söfnum, þar á meðal í Andy Warhol-safninu í Pittsburgh, heimaborg listamannsins fræga. „Ég held að þetta séu hans Kjarvalsstaðir. Þetta er virt stofnun," segir hann um Warhol-safnið.

Mestmegnis verða spiluð lög af nýjustu plötu Jóhanns, Fordlandia, sem var kjörin plata ársins í flokki sígildrar og nútímatónlistar á Íslensku tónlistar­verðlaununum. Fimm tónleikar eru einnig fyrirhugaðir í Evrópu í apríl og maí og verða þeir fyrstu á Domino-hátíðinni í Brussel 8. apríl. Einnig spilar Jóhann á Durham-brasshátíðinni í Englandi 14. júlí ásamt tuttugu manna brasssveit frá Englandi. „Þeir báðu mig um að semja verk fyrir festivalið sem er reyndar líka bíómynd. Það er samstarf milli mín og amerísks kvikmyndagerðarmanns, Bill Morrison," segir Jóhann. „Hann sérhæfir sig í að vinna með gömul myndasöfn og notar gjarnan gamla filmubúta sem eru að detta í sundur."

Fleiri verk eru í vinnslu hjá Jóhanni og má þar nefna tónlist við mexíkósku bíómyndina By Day and by Night eftir leikstjórann Alejandro Molina og tónlist við dönsku heimildarmyndina Dage i København eftir Max Kestner. „Þetta er ljóðræn sýn á Kaupmannahöfn með áherslu á byggingarnar og arkitektúrinn," segir hann um myndina. „Kestner hefur mjög ljóðrænan og heimspekilegan stíl og er einn af þessum mest spennandi ungu leikstjórum í Danmörku."

Það er því ljóst að þessi fjölhæfi tónlistarmaður mun hafa í nógu að snúast á næstunni við tónlistarsköpun sína.freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.