Innlent

Var Lenín framsóknarmaður?

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra. Mynd/GVA

Iðnaðarráðherra segir að það sé skýr vilji ríkisstjórnarinnar að ráðast í stófellda í atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins gefur ekki mikið fyrir þau orð og telur brýnt að nýir flokkar taki sæti í ríkisstjórn til að auka vægi atvinnusköpunar á landinu. Þetta var meðal þess sem kom fram í umræðu utan dagskrár á þingfundi í dag um álversuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Í umræðunum velti þingmaður VG upp þeirri spurningu hvort Vladimir Lenín hafi verið framsóknarmaður.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, undirritaði nýja viljayfirlýsingu um nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum um miðjan síðasta mánuð. Af því tilefni sagðist Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, vonast til að samningar við Alcoa um álver á Bakka verði frágengnir innan árs og stóriðjuframkvæmdir fari upp úr því á fullt.

Á þingfundinum í dag sagði Katrín viljayfirlýsinguna vera afar mikilvæga.

„Markmiðið er að næsta haust verði rannsóknar og undirbúningsvinnu lokið þannig að unnt verði að ganga til samninga um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Þá viti menn hvaða orku svæðið hafi upp á að bjóða þannig að Alcoa geti þá tekið ákvörðun eða aðrir aðilar," sagði ráðherrann.

Álver hafi jákvæð áhrif

Ástæðan fyrir því að íbúar á Norðausturlandi hafa sett markið á að reist verði álver á svæðinu er sú að störfum hefur fækkað sem leitt hefur til fólksfækkunar í landshlutanum. Þetta kom fram í máli Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, sem var málshefjandi umræðunnar.

Hann sagði að fólk telji að álver komi til með að hafa jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á svæðinu. Íbúarnir hafi kannað alla aðra möguleika en álver. Verkefnið hafi frestast í fyrrasumar með ólöglegum úrskurði þáverandi umhverfisráðherra. Höskuldur hvatti Katrínu til að koma verkefninu af stað á nýjan leik.

Að mati Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG, er viljayfirlýsingin mikið heillaskref fyrir íbúa á svæðinu sem og þjóðina. „Nú hafa allir sem áhuga hafa aðgang á að nýta þessa orku í staðinn fyrir að henni hafi verið haldið fyrir einn aðila fram til þessa."

Þá gerði hann að umfjöllunarefni grein Höskuldar í Fréttablaðinu í dag þar sem Höskuldar sagði að svo virtist sem að Lenín ætti að vísa ríkisstjórninni veginn. Björn Valur sagði að líklega væri leitun eftir eins miklum stóriðjusinna og Lenín hafi verið. „Það skyldi þó aldrei vera að gamli góði Lenín hafi verið framsóknarmaður?"

Jón vill nýja stjórn

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fullyrti í umræðnum að samhliða stóriðjuframkvæmdum aukist áhersla á umhverfismál og sjálfbært samfélag. Á árunum 2001 til 2006 hafi orkufyrirtækin greitt milljónir í verkefni á vegum umhverfismála. Hann sagði brýnt að mynduð verði ný ríkisstjórn. „Það verða aðrar flokkar að koma að þar sem að vægi atvinnusköpunar og vinnu í þessu landi er meira áherslumál en raun ber vitni."

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, kvaðst vera ánægður með viljayfirlýsinguna. „Þar er komin leið til að sækja þessa vinnu en ekki að bíða endalaust eftir henni. Við getum ekki beðið endalaust þegar við höfum verðmæta orku í iðrum jarðar. Græna orku. Þá bíðum við ekki heldur sækjum eftir verðmætum og eftirsóttum störfum íbúum á svæðinu til heilla."

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði afar fallegt væri á Bakka og benti á að orkan væri ekki ótakmörkuð. „Raforkuframleiðsla úr jarðgufu er 12% nýting af orku. 88% af orkunni er sóað," sagði Þór og bætti við að ekki væri til meiri en orkusóun en virkjun til áliðnaðar.


Tengdar fréttir

Vísar Lenín leiðina?

Í umræðunni að undanförnu hafa málefni stóriðjunnar komið mjög við sögu og þjóðhagsleg þýðing hennar fyrir samfélagið. Stóriðjufyrirtækin eru fjögur hér á landi, Alcan í Straumsvík, Elkem á Grundartanga, Fjarðaál við Reyðarfjörð og Norðurál á Grundartanga. Ekki þarf að deila um það að stóriðjan er mikilvæg og varanleg kjölfesta í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar, hún skapar bæði fjölmörg og vel launuð störf og gríðarmiklar útflutningstekjur. Fyrirtækin eru langstærstu og stöðugustu kaupendur raforku og kringum þau hefur byggst upp annar iðnaður um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×