Lífið

Óverjanleg staða Rúnars í Grímunefnd

Óheppilegt Jón Viðar hefur efasemdir um fyrirkomulag við útnefningar.
Óheppilegt Jón Viðar hefur efasemdir um fyrirkomulag við útnefningar.

Leiklistarverðlaunin Gríman eru í hálfgerðu uppnámi eftir að upp komst að Rúnar Guðbrandsson, leikstjóri og höfundur sýningarinnar Steinar í djúpinu, sat í valnefnd Grímunnar. Rúnar hefur sagt af sér og beðið þess að atkvæði hans verði gerð ógild:

„Heiður Grímunnar gengur fyrir í einu og öllu, sem og þeirra listamanna sem hafa unnið með mér að sýningunni Steinar í djúpinu,“ segir í yfirlýsingu frá Rúnari.

Málið hefur þó frekari eftirköst því samkvæmt Sigurði Kaiser, framkvæmdastjóra Grímunnar, hafa bæði stjórn Leiklistarsambands Íslands og fulltrúaráð LSÍ fundað um málið og hefur þótt ástæða til að bregðast við setu annarra í valnefnd. Þá segir hann að starfshópur vinni að því að meta verkferlana fyrir næsta leikár. Ekki hafa þó fengist upplýsingar um hverjir aðrir sitja í nefndinni.

Blóraböggull Rúnar Guðbrandsson hefur sagt sig úr valnefnd Grímunnar.

„Breytir þetta einhverju í raun?“ spyr Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi.

„Breytir það því að sýningin hans fær flestar tilnefningar? En þessi ákvörðun er skynsamleg, ég held að Rúnar hafi verið í alveg óverjanlegri stöðu. Ég hef lengi haft miklar efasemdir um þetta fyrirkomulag á útnefningum til Grímunnar,“ segir Jón Viðar.

„Það verður alltaf hægt að deila um verðlaun og viðurkenningar og því er ákaflega mikilvægt að vel sé staðið þar að.“

Formaður Félags leikstjóra á Íslandi og ritari Leiklistarsambandsins, Steinunn Knútsdóttir, sagði í samtali við Fréttablaðið að skipun Rúnars í nefndina hefði verið samkvæmt starfsreglum.

„Það var því enginn sem gerði neitt rangt, hvorki hann né Félag leikstjóra. Það er ekkert sem bendir til þess að eftir afsögn hans sé neitt sem kastar rýrð á ákvörðunartökuna, þá sem eru tilnefndir eða þá sem hljóta vinninga.“ - kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.