Lífið

Á faraldsfæti í allt sumar

Emiliana Torrini Emilíana Torrini spilar bæði á Glastonbury-hátíðinni og Rock Werchter í sumar.
Emiliana Torrini Emilíana Torrini spilar bæði á Glastonbury-hátíðinni og Rock Werchter í sumar.

Fjöldi íslenskra tónlistarmanna verður á faraldsfæti í sumar. Á meðal viðkomustaða eru tvær af stærstu tónlistarhátíðum Evrópu, Hróarskelda og Glastonbury.

Emilíana Torrini og Lay Low spila báðar á The Park-sviðinu á Glastonbury á Englandi 26. júní. Á meðal annarra flytjenda þennan dag á sama sviði verða Animal Collective og The Horrors. Emilíana, sem er að kynna plötu sína Me and Armini, spilar einnig á Rock Werchter í Belgíu 2. júlí, sem er ein stærsta tónlistarhátíð Evrópu eins og Glastonbury.

Glastonbury-hátíðin var fyrst haldin árið 1970, degi eftir að Jimi Hendrix dó. Dregur hún jafnan til sín fjölda þekktra flytjenda og í ár má þar nefna Neil Young, Blur og Nick Cave and the Bad Seeds.

Hróarskelduhátíðin í Danmörku hefur verið haldin hátíðleg síðan 1971 og í ár spila þar Coldplay, Oasis og Kanye West, svo fáein nöfn séu talin upp. Hjaltalín verður þar einnig og stígur hún á stokk á fyrsta kvöldinu, fimmtudaginn 2. júlí. Ekki er ljóst á hvaða sviði sveitin verður en margir bíða þessarar frumraun hennar á hátíðinni með mikilli eftirvæntingu. Hún hefur verið á stórri tónleikaferð um Evrópu síðan í vor, og henni lýkur ekki fyrr en í haust.

Áður en Hjaltalín mætir á svæðið spilar tónlistarkonan Kira Kira 30. júní á Pavilion-sviðinu í Hróarskeldu, því sama og Bloodgroup var á í fyrra. Um er að ræða stórt tjald fyrir um tíu þúsund áhorfendur þar sem ungir og upprennandi tónlistarmenn fá að spreyta sig í aðdraganda hátíðarinnar.

Múm spilar á tveimur smærri tónlistarhátíðum á Englandi í sumar, eða Loop Festival í Brighton 12. júlí og á Summer Sundae-hátíðinni í Leicester 14. ágúst. Einnig spilar hún á Feneyjatvíæringnum á Ítalíu 17. og 18. júní og heldur síðan nokkra tónleika til viðbótar þar í landi, meðal annars í Róm og Flórens.

Jóhann Jóhannsson verður duglegur við tónleikahald frá 25. júní til 14. júlí. Eins og Fréttablaðið hefur greint frá spilar hann í Warhol-listasafninu í Pennsylvaníu, auk þess sem New York og Chicago verða á meðal viðkomustaða.

Hljómsveitin For A Minor Reflection hóf tónleikaferð sína um Evrópu í gær og stendur hún yfir til 19. júní. Flestir tónleikarnir verða í Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi. Einnig verður Gus Gus á fullu í allt sumar, þar sem President Bongo verður mest áberandi sem plötusnúður. Flest giggin verða í Þýskalandi og Danmörku, meðal annars á Vega, sem íslenskir tónlistarmenn ættu að kannast við. Einnig spilar sveitin á Sonar-hátíðinni í Barcelona sem verður haldin 19. til 21. júní.

Á meðal fleiri hljómsveita á faraldsfæti í sumar eru rokkararnir í Gavin Portland sem fara í stórt tónleikaferðalag um Evrópu 28. ágúst til 11. september og dansboltarnir í Bloodgroup sem spila á tónlistarhátíð í Toronto 18. og 20. júní og á G!-hátíðinni í Færeyjum skömmu síðar. Einnig ætlar Steed Lord að spila bæði í Evrópu og Ástralíu á næstu mánuðum.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.