Innlent

Þýðir ekkert fyrir Breta að senda okkur Icesavereikning

Geir H Haarde
Geir H Haarde Mynd/Image Forum

Það þýðir ekkert fyrir Breta að senda okkur reikninginn fyrir innistæðum sparifjáreigenda hjá Icesave, segir Geir H. Haarde forsætisráðherra.

Bresk yfirvöld lánuðu breska tryggingasjóði innistæðna 800 milljónir punda til að greiða breskum sparifjáreigendum sem áttu peninga á reikningum Icesave. Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins hefur síðan sagt að þeir hyggist sækja þetta fé til íslenskra stjórnvalda. Engin niðurstaða er hins vegar komin í samningaviðræðum íslenskra og breskra stjórnvalda vegna hruns bankanna og forsætisráðherra segir ekki koma til greina að borga þennan reikning frá breskum stjórnvöldum. Stöð 2 spurði forsætisráðherra út í málið á síðasta blaðamannafundi.



Meðal þess sem íslensk og bresk stjórnvöld deila um er ábyrgð tryggingasjóðs inneigna á Íslandi gagnvart breskum sparifjáreigendum en lágmarkstrygging hans er tæplega 21 þúsund evrur á hvern sparifjáreiganda. Bresk stjórnvöld hafa hins vegar ákveðið að greiða öllum þeim sem áttu fé inni á Icesave allt að 50 þúsund pund sem er mun hærri fjárhæð en lágmarkstrygging íslenska tryggingasjóðsins samkvæmt evrópustilskipun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×