Erlent

Enn einn Kennedy út í pólitíkina

Óli Tynes skrifar
Caroline Kennedy við mynd af föður sínum.
Caroline Kennedy við mynd af föður sínum.

Caroline Kennedy er dóttir Johns Kennedys fyrrum forseta. Hún heillaði þjóðina og raunar heiminn allan upp úr skónum þegar hún lék sér sem barn í Hvíta húsinu.

Í dag er hún fimmtíu og eins árs gömul, lögfræðingur að mennt. Hún er þekkt fyrir ritstörf sín en hefur lítið sem ekkert skipt sér af stjórnmálum fyrr en á þessu ári.

David Paterson ríkisstjóri í New York hefur upplýst að Caroline Kennedy hafi haft samband við hann í gær og sagt honum að hún sæktist eftir sæti Hillarys Clinton í öldungadeildinni.

Það eru ríkisstjórar sem einir skipa í þingsæti ef þingmaður yfirgefur það áður en kjörtímabil hans rennur út.

Þótt hún hafi ekki skipt sér mikið af stjórnmálum hefur Caroline Kennedy vegna uppruna síns og menntunar lifað og hrærst í valdaheimi stjórnmálanna og þekkir alla sem einhverju máli skipta.

Hún hefur tekið að sér verkefni fyrir opinberar stofnanir ekki síst í menntamálum og þykir hafa staðið sig frábærlega.

Caroline er gift hönnuðinum Edwin Schlossberg og þau eiga tvær dætur og einn son.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×