Innlent

Þriggja mánaða fangelsi fyrir að ráðast á lögreglumenn

Hæstiréttur dæmdi Algis Rucinskas í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa ráðist á tvo óeinkennisklædda lögreglumenn á Laugarvegi í janúar 2008. Frá refsingu dregst rúmlega viku gæsluvarðhaldsvist hans. Hæstiréttur staðfesti sýknudóm Héraðdsóms Reykjavíkur yfir Sarunas Urniezius, félaga mannsins.

Þrír menn voru í upphafi sakaðir um að hafa ráðist á lögreglumenn fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan veitingastaðinn Monte Carlo á Laugavegi aðfaranótt föstudagsins 11. janúar.

Þeir voru ákærðir fyrir að hafa í sameiningu ráðist á lögreglumann, slegið hann ítrekað, meðal annars í höfuðið, og sparkað í höfuð hans að minnsta kosti tvisvar eftir að þeir felldu hann í götuna. Við þetta hlaut lögreglumaðurinn heilahristing og sár víðsvegar á líkamanum.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði mennina af broti gegn valdstjórninni en sakfelldi einn þeirra, Rucinskas, fyrir líkamsárás.

Ríkissaksóknari ákvað að una sýknudómi yfir þriðja manninum sem ákærður var í málinu en áfrýjaði þeim hluta málsins sem snéri að Rucinskas og Urniezius til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×