Innlent

Undanþágulistar ekki uppfærðir í þrettán ár

Farið verður vandlega yfir starf kvennadeildarinnar og grein gerð fyrir því hvaða þjónusta teljist bráðaþjónusta og verði veitt þó af verkfallsaðgerðum ljósmæðra verði.
Farið verður vandlega yfir starf kvennadeildarinnar og grein gerð fyrir því hvaða þjónusta teljist bráðaþjónusta og verði veitt þó af verkfallsaðgerðum ljósmæðra verði. Fréttablaðið/Arnþór

Undanþágulistar sem gilda um neyðarmönnun, komi til verkfalla ljósmæðra í september, hafa ekki verið uppfærðir í rúman áratug.

„Listarnir endurspegla neyðarmönnun fyrir þrettán árum," segir Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands.

Ljósmæður kjósa um verkföllin í næstu viku. Ef af aðgerðum verður munu þær leggja nokkrum sinnum niður vinnu í næsta mánuði og fara í allsherjarverkfall þann 29. september. Ljósmæður á Íslandi hafa aldrei farið í verkfall að sögn Guðlaugar.

„Listarnir endurspegla störf sem undanþegin eru verkfalli til þess að ekki hljótist af slys eða neyðarástand skapist," segir Guðlaug. „Við munum fara vel ofan í saumana á þeim verði samþykkt að grípa til verkfallsaðgerða."

„Við munum bregðast við þannig að neyðarástand skapist ekki," segir Anna Stefánsdóttir, settur forstjóri Landspítala. „Ákveðin þjónusta á kvennasviði er samkvæmt neyðarlistum undan­þegin verkföllum, þar á meðal fæðingaþjónusta."

Anna segir að farið verði yfir starfsemina þegar sjáist í hvað stefni. „Við munum fara vandlega yfir allt starfið og gera grein fyrir hvaða þjónusta teljist bráðaþjónusta og verði veitt."

Guðlaug segir að með aðgerðum sínum vilji ljósmæður tryggja leiðréttingu á launum sínum og afstýra þannig neyðarástandi sem fyrirsjáanlegt sé í barneignaþjónustu.

„Helmingur stéttarinnar hefur sagt upp störfum og við sjáum fram á að 44 prósent ljósmæðra fari á eftirlaun næstu tíu árin," segir Guðlaug. „Við getum ekki mannað þær stöður þegar nýútskrifaðar ljósmæður treysta sér ekki til starfa vegna launanna sem í boði eru."

Næsti fundur ljósmæðra við samninganefnd ríkisins er áætlaður þann 26. ágúst. „Við trúum því að viðsemjendur okkar afstýri verkföllum og semji áður en til þeirra kemur."

Hildur Harðardóttir, sviðsstjóri kvennasviðs Landspítala, vildi í gær ekki tjá sig um neyðarmönnun kæmi til verkfalls þar sem málið væri enn í skoðun.

Hún játar að þörf fyrir neyðarmönnun hafi vafalaust breyst síðustu þrettán árin. „Það er þó alveg ljóst að neyðarþjónustu verður haldið úti og fæðandi konum verður sinnt," segir Hildur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×