Lífið

Ellilífeyrisþegi yfir Ermarsund en Benedikt ekki

Benedikt hefur ekki haft heppnina með sér hingað til.
Benedikt hefur ekki haft heppnina með sér hingað til.

Þó Benedikt LaFleur hafi ekki komist yfir Ermasundið í þremur atrennum er það ekki óvinnandi vígi. Þannig hafa bæði ellilífeyrisþegar og börn synt frá Dover á Englandi til Calais í Frakklandi - leið sem almennt er talin ein sú erfiðasta í heimi fyrir sjósund. Rúmlega tvö þúsund hópar og einstaklingar hafa synt yfir sundið frá því það var fyrst gert þann 24. ágúst árið 1875.

Benedikt hefur undanfarin þrjú ár tekist á við þessa miklu þrekraun, en orðið frá að hverfa í öll skiptin vegna strauma eða veðurs. Nú síðast eftir að hafa lagt helming leiðarinnar að baki á tíu tímum. Í fyrra synti hann í rúma 20 tíma og komst alla leið að ströndum Frakklands áður en að hann varð að gefast upp vegna þungra strauma.

Menn eru misheppnir með það eins og annað. Töluverð umferð sundmanna er á milli Dover og Calais á sumrin. Vikuna í kringum tilraun Benedikts í fyrra náðu til dæmis þrettán einstaklingar og hópar að klára sundið. Vikuna fyrir fyrstu tilraun hans í september 2006 voru þeir tíu.



2018 hópar og einstaklingar hafa synt yfir Ermasund, og eykst fjöldi þeirra sem klára þetta erfiða sund ár frá ári. Sumarið 1998 voru þeir 41, en í fyrra voru 144 hópar og einstaklingar sem náðu fyrirheitna landinu við Frakklandsstrendur - oft nefnt kirkjugarður draumanna vegna þess hve erfitt það getur reynst sundfólkinu að taka þar land.

Á vefsíðunni Dover.co.uk má sjá ýmis met sem hafa verið sett í Ermasundinu. Hraðamet var sett 24. ágúst í fyrra þegar Búlgarinn Petar Stoychev fór sundið á sex tímum, fimmtíu og sjö mínútum og fimmtíu sekúndum. Meðaltalstími er hinsvegar rúmir þrettán tímar. Sá elsti sem hefur farið sundið var rúmlega sjötugur, og sá yngsti ellefu ára. Sumir fá svo hreinlega ekki nóg af volkinu. Breska konan Alison Streeter, sem býr í Dover, hefur 43 sinnum náð yfir sundið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.