Innlent

Minna á mikilvægi sjálfboðaliðasamtaka

Jóhanna Sigurðardóttir ávarpaði málþingið.
Jóhanna Sigurðardóttir ávarpaði málþingið.

Samtökin almannaheill, sem eru regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka sem starfa að almannaheillum, minna á mikilvægi starfsemi sinnar í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu, og skora á Alþingi að skera ekki niður fjárframlög til slíkra samtaka við endurgerð fjárlaga.

Samtökin almannaheill héldu málþing fimmtudaginn 6. nóvember þar sem fjallað var um breytt hlutverk almannaheillasamtaka í breyttu samfélagi. Var þar frá ýmsum hliðum rætt um hvernig þessi samtök þurfa að bregðast við yfirstandandi fjármálakreppu. Var með annars rætt um endurskoðun hlutverka, forgangsröðun verkefna, styrkingu samtakanna, fjölgun sjálfboðaliða og félagsmanna.

Tveir ráðherrar, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, ávörpuðu fundinn og hvöttu almannaheillasamtök til að taka af krafti þátt í að leysa þau viðfangsefni sem fjármálakreppan hefur leitt af sér. Nánari dagskrá fundarins fylgir hér með í viðhengi.

,,Vegna mikillar sjálfboðavinnu innan almannaheillasamtaka margfaldast hver króna sem til þeirra er veitt og samtökin þurfa á fjármunum að halda til þess að geta sinnt starfi sínu af krafti," segir í ályktun samtakanna.

Jafnframt skora samtökin á fyrirtæki og einstaklinga að koma til liðs við almannaheillasamtök og leggja þar með sitt af mörkum til uppbyggingar íslensks samfélags.

Aðildarfélög Samtakanna almannaheilla eru; Aðstandendafélag aldraðra, Bandalag íslenskra skáta, Blindrafélagið, Geðhjálp,

Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, Heimili og skóli, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Landvernd, Neytendasamtökin,

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Ungmennafélag Íslands,

Öryrkjabandalag Íslands og Landsamtökin Þroskahjálp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×