Innlent

Sérfræðingur Europol: Augljóslega miklir kunnáttumenn

Sérfræðingur á vegum Europol sem aðstoðaði lögregluna við að uppræta fíkniefnaverksmiðju í Hafnarfirði segir verksmiðjuna vera með þeim fullkomnari sem hann hafi séð á ferlinum. Hann segir að greinilegt sé að miklu hafi verið til kostað og þeir sem að henni stöðu séu augljóslega miklir kunnáttumenn.

Sérfræðingurinn Andre van Rijn sat fyrir svörum á blaðamannafundi lögreglunnar í dag. Hann var spurður hversu fullkomin verksmiðjan væri á skalanum 1-10 og svaraði hann því til að hún væri líklega í kringum 9.

Á blaðamannafundinum kom fram að sérfræðingar á vegum Europol hefðu unnið að því að taka verksmiðjuna niður í dag og sú vinna hefði gengið vel. Ekki er talið útilokað að efni sem framleidd voru í verksmiðjunni séu þegar komin á markað.

Á fundinum kom fram að verksmiðjan hafi verið afar fullkomin og flókin og afkastageta hennar mikil.

Fjórir menn voru handteknir í tengslum við verksmiðjuna og voru tveir þeirra úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í gær. Einum þeirra var sleppt en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þriðja aðilanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×