Innlent

Bankarnir komu að forsetabókinni

Guðjón Friðriksson, ævisagnaritari.
Guðjón Friðriksson, ævisagnaritari.

Viðskiptabankarnir þrír Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn komu allir fjárhagslega að nýútkominni bók Guðjóns Friðrikssonar, ævisagnaritara, Sögu af forseta.

,,Ég hafði verið á launum hjá launasjóði rithöfunda lengi en var skorinn niður þar og ég sá fram á að ég gæti ekki haldið áfram ritstörfum nema að fá einhvern stuðning og leitaði til bankanna," segir Guðjón og bætir við að hann hafi einnig fengið fyrirfram hjá bókaútgefanda sínum. Hvoru tveggja hafi fleytt honum í gegnum vinnu við gerð bókarinnar. Guðjón vill ekki gefa upp hversu mikið bankarnir styrktu hann.

Undanfarin ár hefur verið algengt að rithöfundar og fræðimenn leiti eftir fjárstuðningi úr hjá hinum ýmsu sjóðum, bönkum og öðrum fyrirtækjum, að sögn Guðjóns. ,,Núna er ég í stóru verkefni ásamt öðrum sem heitir Saga Kaupmannahafnar sem höfuðborg Íslands og styrkir annarsvegar danskur sjóður og hinsvegar styrktarsjóður Baugs það verkefni."

Guðjón segir að í bréfi til bankanna hafi vinnutitill bókarinnar hugsanlega verið Þáttur forsetans í útlensku útrásinni. Vinnuheiti taki oft breytingum við vinnslu verka. Bókin heitir Saga af forseta: forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, útrás, athafnir, átök og einkamál og er á sjöunda hundrað blaðsíður.

Guðjón hefur áður ritað ævisögur manna á borð við Jónas frá Hriflu, Einar Benediktsson, Hannes Hafstein og Jón Sigurðsson. Hann hefur þrívegis hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×