Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, segir að með því að taka fremur mark á bankastjórum viðskiptabankanna en seðlabankastjóra hafi Geir H. Haarde forsætisráðherra í raun verið að segja að hann bæri ekki traust til seðlabankastjóra og ætti að láta hann fara.
Þetta kom fram í máli hennar í umræðum um vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni sem tekin er fyrir á Alþingi í dag. Valgerður benti á að ríkisstjórnin hefði farið með himinskautum í vinsældum á upphafsmánuðum sínum. Síðan væru liðnir 16 mánuðir og nú væri Snorrabúð stekkur. Ríkisstjórnin væri rúin trausti og stuðningur við hana hefði farið úr 80 prósentum í 30 prósent. Þá benti hún á að þriðjungur ráðherra Samfylkingarinnar vildi boða til kosninga og sama vildu þingmenn úr báðum stjórnarflokkum.
Valgerður sagði skort á samvinnu í ríkisstjórninni og Samfylkingin hefði ekki skynjað hlutverk sitt heldur notað orku sína til að berja á samstarfsflokknum. Þá gagnrýndi hún Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra fyrir að segjast ekki bera ábyrgð á mistökum fortíðarinnar. Hún hefði ekki hlustað á ráðleggingar Seðlabankans fyrr á þessu ári á sex fundum og hefði haldið þessum fundum að því er virtist leyndum fyrir bankamálaráðherranum.
Spurði Valgerður hvers vegna ríkisstjórnin hefði ekki tekið mark á viðvörunum Seðlabankans. Sagði hún að úr því að Geir H. Haarde forsætisráðherra hefði tekið meira mark á bankastjórum viðskiptabankanna en seðlabankastjóra þá bæri hann ekki traust til formanns bankastjórnarinnar og ætti að láta hann fara.
Valgerður sagði aðgerðaáætlun stjórnvalda í kreppunni ófullnægjandi með öllu og það skorti framtíðarsýn fyrir hönd Íslands. Ekki væri samstaða um uppbyggingu í neinni grein á milli ríkisstjórnarflokkanna.
Sagði Valgerður aldrei mikilvægara en nú að ríkisstjórn sæti að völdum sem nyti óskoraðs trausts þjóðarinnar. Traust þyrfti að ríkja á milli ríkisstjórnarflokka og menn að komast að niðurstöðu í málum eftir rökræður. Sakaði hún forsætisráðherra um forystuleysi þar sem hann léti allt yfir sig ganga af hálfu samstarfsflokksins og Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins