Enski boltinn

Arsenal slapp með skrekkinn

Djibril Cisse og Denilson eigast við í leiknum í dag
Djibril Cisse og Denilson eigast við í leiknum í dag NordicPhotos/GettyImages

Leikjunum þremur sem hófust klukkan 14 í ensku úrvalsdeildinni er lokið. Arsenal marði 1-1 jafntefli á útivelli gegn Sunderland þar sem mikil dramatík var á lokamínútunum.

Leikirnir þrír voru frekar bragðdaufir lengst af, en undir lokin dró heldur betur til tíðinda.

Eftir frekar daufan leik á leikvangi ljóssins voru það heimamenn í Sunderland sem komust yfir með þrumuskoti Grant Leadbitter á 86. mínútu og Arsenal horfði fram á annað tapið í röð.

Það var hinsvegar Cesc Fabregas sem reyndist hetja Arsenal þegar hann skoraði með skalla og jafnaði þegar komið var fram í uppbótartíma. Arsenal réði ferðinni lengst af í leiknum, en liðið hefur þó oft leikið betur en það gerði í dag.

Middlesbrough hefur ekki gengið vel upp á síðkastið en í dag nældi liðið í mikilvægan útisigur á Wigan 1-0. Það var Jeremie Aliadiere sem skoraði sigurmarkið í blálokin.

Loks vann West Brom góðan 1-0 sigur á Fulham þar sem Roman Bednar skoraði sigurmarkið á 61. mínútu. Fulham var 63% með boltann í leiknum en heimamenn áttu fleiri skot á markið og nýttu eitt þeirra.

Klukkan 16:30 tekur svo Blackburn á móti Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×