Fótbolti

HM 2010 á gervigrasi?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Björn Ingi Hrafnsson sýnir fótboltakunnáttu sína á gervigrasvelli í Breiðholti.
Björn Ingi Hrafnsson sýnir fótboltakunnáttu sína á gervigrasvelli í Breiðholti.

Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að leikirnir á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku 2010 gætu verið leiknir á gervigrasi. Þá finnst honum að leikir Afríkukeppninnar eigi í framtíðinni að vera á gervigrasvöllum.

„Við erum að skoða þessa möguleika en það hefur engin endanleg ákvörðun verið tekin. Mér finnst tímabært að stigið verði næsta skref með þessa gervigras-tækni," sagði Blatter.

Margir leikmenn og þjálfarar eru ekki hrifnir af þessari þróun og segja að lið sem eru vanari svona völlum fái ákveðið forskot. FIFA er með verkefni í gangi þar sem sambandið ætlar að leggja gervigrasvelli í öllum 53 aðildarlöndum sínum í Afríku.

„Ég fylgdist vel með Afríkukeppninni sem nú er nýlokið og heillaðist af gæðunum sem eru komin í afrískan fótbolta. Hinsvegar var ég ekki nægilega hrifinn af völlunum sem leikið var á," sagði Blatter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×