Innlent

Mótmæla Davíð Oddssyni

Davíð Oddsson seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri.

Hópur undir forystu Harðar Torfasonar, Dr. Gunna, Kolfinnu Baldvinsdóttur og fleiri efna til mótmæla á laugardaginn til að knýja á um að Davíð Oddssyni seðlabankastjóra verði vikið frá störfum.

Í fréttatilkynningu frá hópnum, sem kallar sig Nýir tímar - Vertu þátttakandi, ekki þolandi segir að eina leiðin til að þjóðin haldi sjálfsvirðingu sinni nú sé að hún sameinist í fjölmennum mótmælum með ein skýr skilaboð til stjórnmálamanna. Skýr skilaboð um að þjóðin sé þátttakandi en ekki þolandi í þeirri atburðarás sem nú fari í hönd. Skýr skilaboð sem valdhafar geti brugðist við strax, að Davíð Oddssyni verði vikið úr starfi Seðlabankastjóra.

„Davíð Oddsson ber mesta pólitíska ábyrgð á því að bankarnir voru einkavinavæddir á sínum tíma og hleypt í útrás með veikburða eftirlitskerfi. Síðan stillti hann sér upp til að fylgjast með þeim sem Seðlabankastjóri án faglegar þekkingar. Með röð mistaka í hagstjórn Seðlabankans undir forustu Davíðs og ótrúlegan einleik hans síðustu vikur er þjóðin gjaldþrota, rúin trausti og virðingu í alþjóðasamfélaginu," segir í tilkynningu sem Hörður Torfason, Birgir Þórarinsson, Kolfinna Baldvinsdóttir, Dr.Gunni og Andri Sigurðsson skrifa undir.

Mótmælt verður á Austurvelli á laugardag klukkan 15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×